Vefsíðugerð - kóngulóavefur
lína með hring
Vefsíðugerð - 3d blue icon
Vefsíðugerð - gular línur
Vefsíðugerð - hliðarpunktar

Að stofna síðu í WordPress

Síður (Pages) eru aðallega hugsaðar fyrir fasta liði vefsíðunnar, svo sem forsíðu, „Um okkur“-síðu og „Hafa samband“-síðu. Þær eru þannig ekki hluti af breytilega hluta síðunnar þar sem nýjar færslur (Posts) taka við af gömlum. Það er þó vissulega hægt að breyta síðum og jafnvel skipta gamalli síðu út fyrir nýja.

Kostur við síður umfram færslur er að það er hægt að skilgreina yfirsíður og undirsíður en ekki yfirfærslur og undirfærslur. Færslur hafa hins vegar flokka sem þjóna svipuðu hlutverki. Hér á vefsíðugerð.com má lesa um hvernig á að vinna með flokka þegar færslurnar eru WooCommerce-vörur.

Hér fyrir neðan er hægt að lesa um hvernig maður stofnar síðu. Við förum yfir hvernig það er gert annars vegar í grunnumhverfi WordPress og hins vegar í því klassíska (Classic Editor) sem margir kjósa að nota. Einnig er hægt að lesa um það hvernig á að stofna yfirsíður og undirsíður.

Hvernig stofnar maður síðu?

Það er í sjálfu sér mjög einfalt að stofna síðu í WordPress.  Þegar þú ert kominn inn í vefstjórnarsvæðið finnurðu „Síður“ eða „Pages“ vinstra megin í glugganum og velur síðan undirmöguleikann „Bæta við“ eða „Add new“. 

Bæta við síðu WordPress vefsíðugerð

Síðan er hægt að velja nafn á síðuna með því að slá það inn í glugganum sem opnast, þar sem stendur „Add title“ og setja efnið inn þar sem stendur „Type / to choose a block“. Viljirðu setja inn eitthvað annað en texta er annaðhvort hægt að ýta á „/“ á lyklaborðinu eða smella á plúshnappinn hægra megin við textann. Þá koma upp nokkrir möguleikar, svo sem fyrirsögn, myndir og myndagallerí. Hægt er að skoða fleiri möguleika með því að velja „Browse all“ eða nota „Search“ sé maður að leita að ákveðnum möguleika.

Setja titil á síðu

Á vefsidugerd.com eru einnig væntanlegar leiðbeiningar um hvernig á að bæta við myndum á síðu eða færslu.

Efst hægra megin á síðunni er svo hægt að vista og birta síðuna með því að velja „Save draft“ og „Publish“. Við mælum eindregið með því að vista sem oftast.

Setja síðu í loftið (publish)

Hvernig stofnar maður síðu í Classic Editor?

Vera má að vefstjórinn þinn hafi sett síðuna þína upp með Classic Editor, sem er umhverfið fyrir síðu- og færslugerð sem var í WordPress til ársins 2018 þegar nýja umhverfið kom. Það lítur út nokkurn veginn eins og hér að neðan:
Setja titil og efni á vefsíðu

Til samanburðar lítur síða nokkurn veginn svona út í nýja umhverfinu: 

Setja titil á undirsíðu eða aðalsíðu

Hvort sem nýja umhverfið eða Classic Editor eru notuð stofnar maður síðu á nákvæmlega sama hátt. Það má einfaldlega fylgja leiðbeiningunum hér að ofan undir fyrirsögninni „Hvernig stofnar maður síðu?“.

Eins og í nýja umhverfinu setur maður nafnið inn efst í staðinn fyrir „Add title“ og efni síðunnar í stóra boxið þar fyrir neðan. Beint fyrir ofan boxið vinstra megin er lítill gluggi sem á stendur „Efnisgrein“ (Paragraph). Með því að ýta á hann er hægt að velja hvort maður setur inn efnisgrein eða fyrirsagnir af ýmsum stærðum. Hægra megin við hann eru svo ritvinnslumöguleikar, m.a. hægrijöfnun, feitletrun og skáletrun. Þar er einnig hægt að setja inn tengla. Til þess að setja inn myndir er ýtt á hnappinn „Bæta við skrá“ (Add media) beint fyrir ofan stóra boxið vinstra megin.

Á vefsidugerd.com verður einnig bráðum hægt að nálgast leiðbeiningar um það hvernig á að setja inn myndir.

Þegar búið er að velja titil og setja inn efni á síðuna er ýtt á hnappinn „Birta á vefsíðu“ (Publish) eða „Vista drög“ (Save draft) ef síðan er ekki tilbúin til birtingar. Við mælum eindregið með að vista sem oftast.

Vista drög eða birta á vefsíðu

Yfirsíður og undirsíður

Eins og segir hér að ofan er einn helsti kosturinn við síður sá að það er hægt að skilgreina þær sem annað hvort undirsíður eða yfirsíður og flokka þannig efnið á vefsíðunni. 

Einfaldasta leiðin til þess að flokka síðurnar á þennan hátt er að velja „Síður“ og síðan „Allar síður“ (All pages) á stjórnborðinu.

Bæta við síðu

Þá birtist listi yfir allar síðurnar á vefsíðunni. Ef maður setur bendilinn yfir nafn síðunnar sem maður vill breyta í undirsíðu, þá birtast fjórir möguleikar beint fyrir neðan. Til þess að gera síðuna að undirsíðu velur maður „Örbreyta“ (Quick Edit).

Breyta síðu í wordpress

Að lokum velur maður móðursíðu hægra megin fyrir neðan síðuna og þar með er síðan orðin að undirsíðu. Beint fyrir neðan er hægt að setja síðuna í röð þeirra undirsíða sem hafa sömu móðursíðu. Ef maður vill hafa hana fyrsta í röðinni velur maður „1“, ef maður vill hafa hana númer 2 velur maður „2“ o.s.frv. Ef maður vill ekki hafa hana í röð með hinum undirsíðunum velur maður „0“.

Yfirsíða eða undirsíða WordPress

Svo er bara að ýta á „Uppfæra“ (Update) neðarlega hægra megin á skjánum.

Deildu þessu:

Facebook
Twitter
LinkedIn
Email
Vefsíðugerð - þjónustuicon

Upplýsingar um vefsíðugerð

Starfsstöðvar á Íslandi og Svíþjóð

Opið frá 09:00 – 16:00 alla virka daga

Fylgdu okkur

Vefsíðugerð - Vefhönnun - Wordpress - WooCommerce

Panta þjónustu

Við svörum öllum beiðnum innan 24 tíma